Innlent

Björn Leifsson farinn af fundinum: Vantar undirskrift

Haraldur Guðmundsson skrifar
Björn Leifsson, hluthafi í DV ehf., fyrir utan Hótel Natura nú síðdegis.
Björn Leifsson, hluthafi í DV ehf., fyrir utan Hótel Natura nú síðdegis. Vísir/Anton
Björn Leifsson, eigandi World Class og nýr hluthafi í DV ehf., yfirgaf hluthafafund DV á Hótel Natura um klukkustund eftir að fundurinn hófst þegar það kom í ljós að undirskrift eins eigenda félagsins Catalina ehf., sem Björn keypti á þriðjudag, vantar á kaupsamninginn.

„Lögfræðingar Reynis rengja gögnin sem ég er með, eða hluta af gögnunum. Mig vantar eina undirskrift vegna hluts sem var í eigu Catalinu og er upp á 0,91 prósent," segir Björn.

Björn segist gera ráð fyrir að fá undirskriftina áður en fundinum lýkur. Þegar blaðamaður ræddi við Björn voru hefðbundin fundastörf ekki hafin.

Björn segir að hann muni snúa aftur á fundinn og klára verkefnið sem hann hafi sett sér þegar hann keypti 4,42 prósent í DV ehf.

„Ég hef bara einn tilgang með þessu og hann er að koma Reyni Traustasyni frá. Í mínum huga er þetta óþverri sem á ekki að koma nálægt blaðamennsku. Um leið og ég verð búinn að koma honum frá, hvort sem það verður núna eða síðar, þá sel ég bréfin mín," segir Björn.   


Tengdar fréttir

Lofar fjörugum aðalfundi DV

Í dag verður aðalfundur hlutafélags DV haldinn, þar sem meðal annars verður kosið í nýja stjórn félagsins

Bíða í von og óvon fyrir utan fundinn

Blaðamenn DV hafa þungar áhyggjur af áhrifum breyts eignarhalds á lífsviðurværi sitt og hafa fjölmennt fyrir utan aðalfund hlutafélags blaðsins sem nú stendur yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×