Innlent

Dósirnar komnar í leitirnar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Torfi Jóhannsson var að vonum mjög sáttur.
Torfi Jóhannsson var að vonum mjög sáttur.
„Það var bara einn starfsmaður Kórsins sem fór í rölt um nærsvæðið og fann pokana fyrir aftan hurð neðst í hesthúsabyggðinni,“ segir Torfi Jóhannsson, verkefnisstjóri hjá HK, í samtali við Vísi.

HK-ingar hafa fundið dósirnar sem stolið var af þeim eftir tónleika Justin Timberlake á sunnudagskvöldið.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag brá HK-inum heldur betur í morgun þegar í ljós kom að búið var að stela jafnvirði 300 þúsund króna af dósum og flöskum í svörtum ruslapokum sem geymdir höfðu verið fyrir aftan Kórinn sunnanmegin.

„Pokarnir voru í húsi sem enginn notar og er í raun yfirgefið. Við vorum snögg til og komum þessu strax fyrir á góðum stað með aðstoð Hjálparsveit skáta. Þeir ætla síðan að hjálpa okkur við það að flokka þessar dósir og telja þær.“

Sjálfboðaliðar á vegum félagsins höfðu unnið í tvö kvöld að því að tína upp allar dósirnar sem 17 þúsund tónleikagestir skildu eftir sig á tónleikum bandaríska tónlistarmannsins.

„Það er eiginlega magnað hvað allir eru búnir að vera hjálpsamir í dag og við höfum fundið fyrir gríðarlegum stuðningi. Við höfðum til að mynda fengið veður að því að tvö fyrirtæki ætluðu að aðstoða okkur og jafnvel styrkja okkur um það fjárhagslega tjón sem blasti við.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×