Fótbolti

Ronaldo og Kessler best í Evrópu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo vann Meistaradeild Evrópu og spænsku bikarkeppnina með Real Madrid á síðustu leiktíð.
Ronaldo vann Meistaradeild Evrópu og spænsku bikarkeppnina með Real Madrid á síðustu leiktíð. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, og Nadine Kessler voru kjörin besta knattspyrnufólk Evrópu nú rétt í þessu, en athöfnin fór fram strax á eftir drættinum í Meistaradeild Evrópu.

Ronaldo átti frábært tímabil í fyrra, en hann var í sigurliði Real Madrid í spænsku bikarkeppninni og Meistaradeild Evrópu. Portúgalinn setti markamet á síðustu leiktíð þegar hann skoraði 17 mörk í Meistaradeildinni, en hann skoraði m.a. tvö mörk í undanúrslitunum gegn Bayern München og fjórða og síðasta mark Real í úrslitaleiknum gegn Atletico Madrid.

Alls skoraði Ronaldo 51 mark í 47 leikjum á síðustu leiktíð. Hann er einnig handhafi Gullboltans, Ballon d'Or.

Manuel Neuer og Arjen Robben, leikmenn Bayern München, voru einnig tilnefndir til verðlaunanna.

Kessler var kjörin besta knattspyrnukona Evrópu, en hún vann bæði þýska meistaratitilinn og Meistaradeild Evrópu með Wolfsburg á síðustu leiktíð.

Samherjar Kessler hjá Wolfsburg, hin sænska Nilla Fischer, og hin þýska Martina Müller voru einnig tilnefndar.

Nadine Kessler leikur með Wolfsburg í Þýskalandi.Vísir/Getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×