Innlent

„Núna hefjast árásir til að grafa undan Umboðsmanni Alþingis“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
„Mér sýnist það vera orðið þannig að það sé enn betri hugmynd fyrir innanríkisráðherra að segja af sér,“ segir Guðmundur Steingrímsson, oddviti Bjartar framtíðar um stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

„Þó ekki nema til að skapa frið um mjög mikilvægt embætti sem er embætti innanríkisráðherra. Það var fullyrt áður að innanríkisráðherra hefði ekki haft nein afskipti af rannsókninni á Lekamálinu. Nú liggur fyrir vitnisburður lögreglustjóra um að hún hafði afskipti. Vefur ósanninda í þessu máli er farinn að verða ansi stór og tímabært að Hanna Birna stígi til hliðar,“ bætir Guðmundur við.

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, tekur í sama streng. „Þetta er grafalvarlegt mál. Það er mjög mikilvægt að fólk sé meðvitað að núna munu hefjast miklar árásir til að grafa undan trúverðugleika embættis umboðsmanns Alþingis,“ segir Birgitta.

Katrín Jakobsdóttir telur að Hanna Birna eigi að segja af sér. „Það gerir málið mjög alvarlegt að umboðsmaður hyggst taka upp frumkvæðisrannsókn á þessu máli. Það lítur út fyrir að ráðherra hafi farið út fyrir mörk í samskiptum við lögreglustjóra sem gerir málið alvarlegt. Það er líka mikilvægt að umboðsmaður fái nú svigrúm til að ljúka sinni rannsókn á málinu. Ég hef sagt það áður og segi það aftur að ég hefði talið hyggilegast að Hanna Birna hefði stigið til hliðar og sagt af sér embætti fyrr.“


Tengdar fréttir

Stefán segir aðstoðarmenn Hönnu Birnu hafa beðið sig um að neita frétt DV

Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri, tjáði Umboðsmanni Alþingis að aðstoðarmenn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, þau Gísli Freyr Valdórsson og Þórey Vilhelmsdóttir, hafi haft samband við sig og beðið hann um að neita fréttaflutningi DV um samskipti sín við ráðherra.

Hanna Birna segist ekki hafa gert neitt rangt

"Það á aldrei að vera þannig að stjórnmálamaður velti fyrir sér að segja af sér embætti ef hann hefur ekki gert neitt rangt,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, Innanríkisráðherra, í beinni útsendingu í þættinum Ísland í dag í kvöld. Yfirlýsing í kjölfar þriðja bréfs Umboðsmanns Alþingis til hennar hefur vakið mikla athygli í dag.

Bjarni ósáttur við umboðsmann

Bjarni Benediktsson, gagnrýnir Umboðsmann Alþingis fyrir að hafa ekki gefið innanríkisráðherra færi á að svara fyrir sig áður en athugasemdir hans rötuðu í fjölmiðla.

Segir Hönnu Birnu hafa spurt út í samskipti sín við umboðsmann Alþingis

Stefán Eiríksson segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafi spurt sig hvort hann hafi haft samband við umboðsmann Alþingis vegna fyrirspurna umboðsmanns til Hönnu Birnu vegna gruns um óeðlileg samskipti þeirra á milli vegna lögreglurannsóknar á lekamálinu svokallaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×