Sjö hundruð skjálftar mældust í Bárðarbungu og undir Dyngjujökli á tólf klukkustunda tímabili í nótt og í morgun og voru skjálftarnir heldur stærri en undanfarna daga. Tveir stórir skjálftar yfir 5 að stærð urðu í Bárðarbunguöskjunni í nótt. Virknin undir Dyngjujökli hefur færst til norðurs og er nú mest undir jaðri jökulsins þar sem skjálfti upp á 4,2 að stærð mældist í morgun.
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld fór Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofunni, yfir nýjustu skjálftana á korti sem sýnir fjölda jarðskjálfta frá því jarðhræringar í Bárðarbungu hófust hinn 16. ágúst sl.
Óútskýrður lágtíðniórói
Eins og komið hefur fram hafa nýjustu athuganir leitt ljós gós hófst ekki undir Dyngjujökli í gær eins og í fyrstu var talið. Sá mikli lágtíðniórói sem mældist á sér aðrar skýringar sem eru í raun óþekktar, að sögn Kristínar. Er unnið að greiningu á því hvað olli honum.
Ríkislögreglustjóri ákvað í dag að lækka almannavarnastig vegna jarðskjálftavirkni kringum Bárðarbungu úr neyðarstigi í hættustig.
Víðir Reynisson deildarstjóri Almannavarna hjá ríkislögreglustjóra segir að það hafi ekki verið röng ákvörðun að lýsa yfir neyðarstigi í gær. Ákvörðunin hafi verið tekin í krafti bestu upplýsinga þess tíma. Að sögn Víðis verður þó farið yfir verkferla hjá Almannavörnum til að meta hvort hægt hafi verið að bregðast einhvern veginn öðruvísi við.
Rætt var við Kristínu Jónsdóttur fagstjóra jarðvár hjá Veðurstofunni og Víði Reynisson deildarstjóra Almannavarna í fréttum Stöðvar 2 og má nálgast viðtölin í meðfylgjandi myndskeiði.