Innlent

Þátttökumet í Reykjavíkurmaraþoni slegið

Linda Blöndal skrifar
Vísir/Andri
Hið árlega Reykjavíkurmaraþon fór fram í morgun. Bæði þátttökumet og met í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþonsins voru slegin og búist er við að tala hlaupara verði nálægt sextán þúsund þegar allt er talið. Mikill fjöldi hljóp í Lækjargötunni í góðu veðri í morgun og fjöldi manns fylgdist með.

Fjögur þúsund og fimmhundruð hlaupa til góðs fyrir hundrað sextíu og sjö mismunandi málefni. Enn var verið að telja fjölda þátttakenda stuttu fyrir hádegi í morgun, samkvæmt Önnu Lilju Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa Maraþonsins. Rúmlega 15300 voru skráðir klukkan hálf ellefu í morgun og gamla metið heldur betur slegið en í fyrra tóku 14272 þátt. Rúmlega 77 milljónir hafa safnast í áheitasöfnuninni í ár, sem er met ,miðað við 72 milljónir í fyrra. Anna Lilja segir sífellt fleiri reima á sig strigaskóna á þessum degi.

Og í Lækjargötu í morgun var allt eins og best var á kosið, samkvæmt hlaupastjóra Maraþonsins, Svövu Oddnýju Ásgeirsdóttur

„Stemmningin hér í Lækjargötu er alveg frábær. Það er yndislegt veður og fólk streymir hér í mark. Það er svo mikill mannfjöldi að maður hefur varla séð annað eins. Um 6600 manns eru að koma í mark í 10 km hlaupi. Allir vilja fá að drekka og fá verðlaunapening um hálsinn, og helst kyssa alla sem eru utan girðingar og eru komnir að fagna með þeim. Á sama tíma kemur í mark fólk úr hálf maraþoni og heilu maraþoni. Það er allt að gerast hérna, það er yndislegur dagur,“ segir Svava.

Fylgjast á með áheitastöfnuninni á vefsíðunni hlaupastyrkur.is og er söfnunin opin fram á miðnætti á mánudag, þar má lesa margar sögur tengdar áheitunum en yfir 25 þúsund einstök áheit hafa borist í gegnum síðuna.

Hér fyrir neðan má sjá myndir úr Reykjavíkurmaraþoninu 2014.

Vísir/Andri
Vísir/Andri
Vísir/Andri
Vísir/Andri



Fleiri fréttir

Sjá meira


×