Innlent

Tappa af Hágöngulóni, Kárahnjúkar ekki í hættu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Landsvirkjun er byrjuð að tappa vatni af Hágöngulóni og niður í Þórisvatn í öryggisskyni ef flóðbylgja kæmi þar niður frá Bárðarbungu. Kárahnjúkastífla er hins vegar ekki talin í hættu.

Margir hafa spurt sig hvort Kárahnjúkastíflu geti stafað hætta af umbrotunum í Vatnajökli en hún er í um 70 kílómetra fjarlægð frá líklegasta gosstaðnum. Því virðist fljótsvarað. Helsti jöklafræðingur landsins, Helgi Björnsson, aftekur það með öllu. Hann telur útlokað að jökulhlaup vegna Bárðarbungu komist austur fyrir Kverkfjöll og í Hálslón.

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar.Stöð 2/Baldur Hrafnkell.
Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, segir engar líkur taldar á að jökulhlaup af svona tagi fari þar yfir og heldur engar sögulegar heimildir um slíkt. Engu að síður sé í hönnunarforsendum Kárahnjúkastíflu gert ráð fyrir að svona flóð geti komið. 

„Þannig að Kárahnjúkastífla er ekki í hættu, þó að það kæmi svona atburður inn á Kárahnjúkasvæðið," segir Óli Grétar. 

Þótt Jökulsá á Fjöllum sé núna talinn líklegasti flóðafarvegurinn eru fjórir mögulegir farvegir. Einn þeirra er til suðvesturs, niður í Hágöngulón og Köldukvísl og inn á vatnasvið Þjórsár og Tungnaár. Þar eru sex virkjanir. Óli Grétar segir að Landsvirkjun hafi í varúðarskyni lækkað niður í Hágöngulóni og hleypt vatni niður í Þórisvatn.



Frá Hágöngulóni.Mynd/Stöð 2.
Svo vill til að almannavarnaæfing í vetur með Landsvirkjun og Landsneti gerði einmitt ráð fyrir stóru hlaupi á þessu svæði vegna eldgoss í Bárðarbungu. Stíflumannvirkin eru hönnuð til að beina stóru hlaupi framhjá Þórisvatni og niður Köldukvísl, og þar með framhjá Vatnsfells-, Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjunum. Við verstu aðstæður, segir Óli Grétar, að lítill hluti Sultartangastíflu, svokallað flóðvar, gæti rofnað.

„En við erum tiltölulega rólegir. Við erum bara í viðbragðsstöðu eins og aðrir," segir Óli Grétar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×