Innlent

Líkur á gosi úr Bárðarbunguöskjunni meiri

Vísir/Vilhelm
„Það er enn verið að reyna að túlka nákvæmlega hvað þetta er, en atburðarrásin er allavega af þeirri stærðargráðu sem vísindamenn hafa ekki séð hér eftir að mælingar hófust,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna.

Hann segir svo mikla breytingu kalla á að farið verði vel yfir allar hugsanlegar sviðsmyndir sem séu mögulegar.

„Líkur á gosi í Bárðarbunguöskjunni sjálfri eru kannski meiri að okkar mati, en þær voru áður.“

Víðir segir sérfræðinga vinna út frá því að atburðarrásin geti verið hröð komi til goss í Bárðarbunguöskjunni.

„Við gefum okkur að við höfum lítinn tíma til þess að undirbúa okkur. Við ætlum að vinna þetta mjög hratt og fara yfir áætlanir okkar í dag.“

Hann segir líklegt að ekki verði breytingar á rýmingaráætlunum Almannavarna. Fundað verði í dag með lögreglustjórum á Hvolsvelli, Selfossi, Húsavík og Eskifirði um málið.

Aðspurður hvort nýju upplýsingarnar gefi í skyn auknar líkur á flóðum segir Víðir það óljóst.

„Þarna er þykkasti ísinn á svæðinu og þar af leiðandi hætta á meira vatni. Hinn stóru póllinn í því er hve öflugt eldgos getur verið þarna. Það erum við enn að skoða og fara yfir hvað verður.“

Fundur vísindaráðs Almannavarna hófst klukkan hálf þrjú og þar er farið yfir næstu skref.

„Við ætlum að fara mjög ítarlega yfir þessa sviðsmynd um eldgos í Bárðarbunguöskjunni og hvort við þurfum að grípa til einhverra frekari ráðstafana heldur en hefur verið gert.“

Svæðið er nú lokað og einungis eru níu vísindamenn þar. Fólki verður ekki fjölgað á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×