Erlent

Vopnahlé í Úkraínu heldur

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðskilnaðarsinnar segja að tveimur sprengjum hafi verið varpað á Donetsk í nótt í trássi við vopnahléið.
Aðskilnaðarsinnar segja að tveimur sprengjum hafi verið varpað á Donetsk í nótt í trássi við vopnahléið. Vísir/AP
Vopnahléið í Austur-Úkraínu virðist halda í dag. Þrátt fyrir það hefur einn leiðtogi aðskilnaðarsinna haldið því fram að stjórnarherinn hafi brotið gegn samkomulaginu, sem sýnir hve brothætt vopnahléið er.

AP fréttaveitan hefur eftir háttsettum foringja í her Úkraínu að þrátt fyrir að skothríð hafi ekki hætt fyrr en um 45 mínútum eftir að vopnahléið tók gildi, hafi ekki komið til átaka í dag.

„Fram til þessa hefur vopnahléið ekki verið brotið, hvorki af okkar mönnum, auðvitað, né af hryðjuverkamönnunum,“ segir Stepan Poltrak.

Alexander Zakharchenko, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Donetsk, segir nóttina hafa verið rólega í borginni. Hann segir þó að tveimur sprengjum hafi verið varpað á borgina í nótt í trássi við vopnahléið.

Úkraína, Rússland og aðskilnaðarsinnarnir skrifuðu í gær undir vopnahlé í Minsk í Hvíta-Rússlandi, til að binda enda á átökin sem hafa varið í fimm mánuði og dregið um 2.600 almenna borgara til dauða.

Vestrænir þjóðarleiðtogar hafa þó gefið í skyn efasemdir um vilja Rússlands til að virða samkomulagið. Barack Obama er þeirra á meðal, en hann sagði Rússland þyrfti að hætta að brjóta gegn fullveldi Úkraínu.

Munu bregðast við þvingunum

Hertar viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gegn Rússlandi taka gildi á mánudaginn. En ESB segir að þær gætu verið felldar niður, dragi Rússar hermenn sína til baka frá Úkraínu og virði vopnahléið að fullu. Utanríkisráðuneyti Rússlands sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem segir að taki þvinganirnar gildi muni Rússland bregðast við.

BBC segir Rússa saka ESB um að lýsa yfir beinum stuðningi við yfirvöld í Kænugarði sem hafi ollið stríðinu.

„Í stað þess að leita leiða til að skaða efnahagi Rússlands og Evrópu, ætti ESB frekar að styðja enduruppbyggingu efnahags Austur-Úkraínu,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×