Lífið

Basshunter á busaballi: Foreldrar fylgjast með fyrirpartýum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Tónlistarmaðurinn Basshunter á sér stóran aðdáendahóp í Verslunarskólanum.
Tónlistarmaðurinn Basshunter á sér stóran aðdáendahóp í Verslunarskólanum.
Nýnemaball Verzlunarskóla Íslands fer fram í kvöld og tóku nokkrir nemendur úr sjötta bekk skólans sig til og buðu þriðju bekkingum skólans í partý fyrir ballið. Málið var tekið upp á foreldrafundi nýnema á þriðjudagskvöld og í ljós kom að foreldrar einstakra nemenda voru ósáttir við að haldin yrðu eftirlitslaus samkvæmi  sem ekki væru á vegum skólans.

„Þetta eru krakkar undir lögaldri og foreldrarnir því ósáttir. Áfengisdrykkja er hins vegar ekki leyfileg á ballinu,“ segir Sigrún Dís Hauksdóttir, formaður nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. 

Líkt og Sigrún nefnir er áfengisdrykkja á böllum Verzlunarskólans ekki leyfileg og þurfa þeir þriðju bekkingar sem inn á ballið fara að blása í þar til gerðan áfengismæli.  Eldri nemendur hafa hins vegar val um að blása. Þá fara allir þeir sem blása í svokallaðan „edrúpott“ og dregnir eru út vinningar eftir hvert ball, skipt eftir árgöngum.

Foreldrar ásamt forseta nemendafélagsins og stjórnendum skólans funduðu um málið í dag og ákvörðun tekin um að foreldrar þeirra sjöttu bekkinga sem partýið halda yrðu viðstaddir veisluhöldin.

„Foreldrar þeirra sem ætla að halda partýin munu senda öllum í þriðja bekk tölvupóst og staðfesta að þau séu heima og búið er að segja öllum að þau geti alltaf hringt í þá manneskju sem ætlar að líta eftir samkvæminu,“ segir Sigrún.

Mikil spenna hefur ríkt á meðal nemenda Verzlunarskólans fyrir ballinu en sænski tónlistarmaðurinn góðkunni Basshunter mun stíga á stokk og skemmta viðstöddum í Kaplakrika í kvöld.


Tengdar fréttir

Verslingar íhuga að mæta á ball MH

Þýski tónlistarmaðurinn Siriusmo spilar á busaballi Menntaskólans við Hamrahlíð sem fer fram í Vodafone-höllinni þann 3. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×