Innlent

„Þetta er bara veisla fyrir ljósmyndara“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gosið í Holuhrauni hefur staðið yfir í að verða viku og er um sannkallað draumamyndefni allra ljósmyndara að ræða, en þeim er ekki hleypt á svæðið nema þeir geti sýnt fram á að þeir séu á vegum fjölmiðla.

Meðal þeirra sem eru á svæðinu til að fanga þetta myndefni er Ragnar Th. Sigurðsson, sem tók nokkrar frægustu myndanna úr Eyjafjallajökli, og hefur myndað eldgos í hartnær 40 ár.

„Ég held að ég sé búinn að mynda öll gos síðan 1975,“ segir Ragnar í samtali við Kristján Már Unnarsson.

„Þetta er það besta, þetta er betra en allt. Ég hef aldrei séð svona flott gos áður.“

Ragnar segir að um sé að ræða ótrúlega myndrænt eldgos.

„Við erum með vatn, við erum með speglun, við erum með hraun, gosstróka upp í loftið, við erum með litina á himninum og því er þetta bara veisla fyrir ljósmyndara.“

Ragnar myndar fyrir tímaritið Time eins og sjá má hér og einnig fyrir BBC.

„Þeir hjá Time og BBC geta ekki beðið eftir því að fá myndirnar.“

Í myndbandinu hér fyrir ofan má einnig heyra hljóð fugla, sennilegra skelkaðra.


Tengdar fréttir

Hvað á nýja eldstöðin að heita?

Fjölmargar tillögur um nafn á nýju eldstöðina hafa borist fréttastofu. Flestir leggja til Drekahraun og þá hafa einnig fjölmargir lagt til Bárðarhraun.

Flatarmál hraunsins nú rúmir fjórir ferkílómetrar

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, flaug yfir umbrotasvæðið við norðanverðan Vatnajökul milli klukkan 13:45 og 16:30 í dag. Gossprungan er um 1,5 kílómetri og er samfellt gos á um 600 til 800 metra löngum kafla.

Stærra gos en síðast

"Þetta er hraungos og það er aðeins meira en síðast. Meira hraun sem er ósköp eðlilegt og eins og við var búist,“ segir eldfjallafræðingurinn Ármann Höskuldsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×