Enski boltinn

Welbeck: Rétt ákvörðun að fara til Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Danny Welbeck mun leika í treyju númer 23 hjá Arsenal.
Danny Welbeck mun leika í treyju númer 23 hjá Arsenal. Vísir/Getty
Danny Welbeck, nýjasti liðsmaður Arsenal, hefur trú því að félagið geti barist um enska meistaratitilinn á tímabilinu.

„Arsenal hefur staðið sig vel á undanförnum árum og á síðustu leiktíð unnum við bikarkeppnina og ég trúi því að við getum gert alvöru atlögu að Englandsmeistaratitlinum.

„Ég hef unnið ensku deildina einu sinni og myndi vilja endurtaka það,“ sagði Welbeck í samtali við heimasíðu Arsenal.

Welbeck, sem gekk til liðs við Arsenal frá Manchester United fyrir 16 milljónir punda á lokadegi félagaskiptagluggans, telur að hann passi vel inn í leikstíl Arsenal.

„Ég hef trú á leikstíl liðsins og ég get tekið við stungusendingum frá þessum frábæru miðjumönnum sem Arsenal hefur og skorað mörk.

„Ég vil stinga mér aftur fyrir varnir andstæðingananna og koma skotum á markið. Ég vil skora mörk og hjálpa liðinu að ná góðum úrslitum,“ sagði Welbeck sem er ánægður með vistaskiptin.

„Þetta eru spennandi tímar fyrir mig. Það er frábært að vera hluti af þessu liði sem ég hef alltaf fylgst vel með í ensku úrvalsdeildinni. Ég hef áður ímyndað mér hvernig væri að spila með liðinu.

„Ég hef verið hjá United síðan ég var lítill strákur og ég átti frábæra tíma þar. En ég held að þetta sé næsta skref á ferlinum - að koma til Arsenal til að sýna fólki virkilega hvað ég get sem fótboltamaður. Ég trúi því að það hafi verið rétt ákvörðun að fara til Arsenal.“

Welbeck meiddist á ökkla á æfingu enska landsliðsins í gær og missir af þeim sökum líklega af vináttulandsleiknum gegn Noregi í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×