Golf

Watson valdi Mahan, Bradley og Simpson

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tom Watson tilkynnti hópinn í beinni útsendingu í gær.
Tom Watson tilkynnti hópinn í beinni útsendingu í gær. vísir/getty
Tom Watson, fyrirliði Ryder-liðs Bandaríkjanna í ár, valdi þá HunterMahan, KeeganBradley og WebbSimson með fyrirliðavalréttinum, en hann tilkynnti bandaríska hópinn seint í gærkvöldi.

Þeir mæta evrópska liðinu ásamt þeim níu sem fyrir löngu voru búnir að tryggja sitt sæti samkvæmt stigalista bandaríska liðsins.

Keegan Bradley er 28 ára og vann PGA-meistaramótið árið 2011. Hann stóð sig mjög vel í Ryder-bikarnum 2011 ásamt Phil Mickelson og vann þrjá leiki áður en hann tapaði fyrir Rory McIlroy á lokadegi.

Hunter Mahan er 32 ára, en hann fór langt með að tryggja sér sæti í liðinu þegar hann vann Barclays-meistaramótið í FedEx-bikarnum á dögunum. Þetta er í þriðja skiptið sem hann keppir í Ryder-bikarnum.

Webb Simpson er 29 ára gamall, en hann vann opna bandaríska meistaramótið nokkuð óvænt fyrir tveimur árum. Hann vann tvo leiki ásamt BubbaWatson í Ryder-bikarnum fyrir tveimur árum, en tapaði svo tveimur fyrir IanPoulter.

Ryder-lið Bandaríkjanna: Bubba Watson, Rickie Fowler, Jim Furyk, Jimmy Walker, Phil Mickelson, Matt Kuchar, Jordan Spieth, Patrick Reed, Zach Johnson, Keegan Bradley, Webb Simpson og Hunter Mahan.

Ryder-bikarinn fer fram á Gleneagles-vellinum í Skotlandi 26.-28. september og verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×