Erlent

Stóra-Bretland heldur velli - Skotar segja nei

Tryggvi Ólafsson skrifar
Sambandssinnar fagna úrslitum kosninganna í Glasgow í nótt.
Sambandssinnar fagna úrslitum kosninganna í Glasgow í nótt. vísir/ap
Sambandssinnar báru sigur úr býtum í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað Skotlands frá Stóra-Bretlandi og því ljóst að 307 ára ríkjasamband Skotlands og Englands heldur velli.

Eftir talningu atkvæða í öllum kjördæmunum 32 hlutu sambandssinnar rúm 55% atkvæða.

Sjálfstæðissinnar unnu sigur í fjórum kjördæmum, þar á meðal í stærstu borginni Glasgow, þar sem Já-hreyfingin fékk rúm 57% atkvæða. Sambandssinnar náðu meirihluta í öðrum kjördæmum og unnu stórsigur í höfuðborginni Edinborg.

Metþátttaka var í kosningunum. Á kjörskrá voru rúmar fjórar milljónir manna og var kjörsókn um 84%. Atkvæðisrétt höfðu allir íbúar Skotlands, 16 ára og eldri.

Alex Salmond, leiðtogi sjálfstæðissinna, notaði Twitter til að þakka Glasgow veittan stuðning:



David Cameron hélt ávarp eftir að úrslit kosninganna voru ljós.vísir/ap
Sambandssinnar höfðu mikla forystu í könnunum allt fram að lokasprettinum þegar heldur dró saman með fylkingunum og sýndu nokkrar kannanir á tímabili fram á nauman sigur sjálfstæðissinna.

Báðar hópar ráku öfluga kosningabaráttu allt fram á síðustu stundu en óvissa um ýmis efnahagsmál, ekki síst gjaldmiðilsmál, eru talin hafa átt ríkan þátt í sigri Nei-sinna.

Í ávarpi eftir að úrslitin voru ljós sagði David Cameron að Skotar þyrftu nú að slíðra sverðin og horfa saman fram á veginn.

Heimir Már Pétursson, fréttamaður Stöðvar 2, og Björn Sigurðsson tökumaður eru staddir  í Skotlandi og tóku kjósendur tali á kjördag og kynntust báðum hliðum á þessu mikla hitamáli.

Sundurliðuð úrslit kosninganna í Skotlandi má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×