Lífið

„Forsætisráðherrann ykkar er fullorðið barn sem plokkar augabrúnirnar!“

Þórður Ingi Jónsson skrifar
David Collins og Shane Dundas eru The Umbilical Brothers.
David Collins og Shane Dundas eru The Umbilical Brothers. Getty
Umbilical Brothers er uppistandstvíeyki frá Ástralíu sem verður með sýninguna Don‘t Explain í Hörpunni þann 1. október. Sýningin er margverðlaunuð en Time Magazine kallaði hana „hreina leikhúsupplifun og hreina gleði.“

„Ég var að horfa á sjónvarpið þegar þú hringdir og ég sá að nú eruð þið með annað helvítis eldfjall? Ég vona að það hafi ekki gosið af því að við erum á leiðinni,“ segir David Collins, annar helmingur tvíeykisins í samtali við Vísi. „Landið ykkar er fullkomið fyrir grín – forsætisráðherrann ykkar er fullorðið barn sem plokkar augabrúnirnar!“

Þetta verður í fyrsta skipti sem Umbilical Brothers troða upp hér á landi en sýningin þeirra einkennist af líkamlegu gríni - eins konar blanda af uppistandi og látbragðsleik. „Sýningin heitir Don‘t Explain af því að ef ég reyni að útskýra fyrir þér hvað sýningin gengur út á munt þú halda að hún sé mesta drasl sem þú hafir nokkurn tímann heyrt um,“ segir David.

Sýningin á Íslandi verður sú fyrsta af fimm sýningum víðs vegar um heiminn en Umbilical Brothers hafa troðið upp í kringum 50 - 60 löndum.





David segir að þeir félagar séu með nokkuð fastmótaða áætlun fyrir Íslandsferðina. „Eftir sýninguna geta innfæddir sagt okkur hvert við eigum að fara og fá okkur drykk. Síðan munu einhverjir indælir Reykvíkingar líklega hella okkur mjög fulla og í kringum þrjú um morguninn munu fullir Reykvíkingar sýna okkur borgina. Ég vona bara að þeir skilji okkur ekki eftir nálægt eldfjallinu.

Ef þið komið síðan til Sydney skal ég segja ykkur á hvaða ströndum þið verðið ekki étin af hákörlum.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×