Varðskipið Týr kom til hafnar á Akureyri síðdegis í gær frá Svalbarða. Þar hafði skipið verið í leiguverkefni frá byrjun maí, þar sem það var notað til eftirlits- og björgunarstarfa og almennrar löggæslu- og þjónustustarfa fyrir sýslumanninn á Svalbarða.
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að tveir starfsmenn LHG hafi verið í áhöfn Týs hverju sinni og að mikil ánægja hafi verið með frammistöðu þeirra.
LHG gerði samning við Fáfni Offshore hf. um verkefnið. Polarsyssel, sem er nýtt skip Fáfnis var afhent sýslumanninum í síðustu viku. Skipið verður nýtt til gæsluverkefna við eyjarnar í sex mánuði um senn næstu tíu árin.
Rekstrar áætlun Landhelgisgæslunnar fyrir 2014 gerir ráð fyrir einungis einu skipi á sjó í senn. Tekjur af umræddu verkefni hafa gert gæslunni kleift að sinna betur björgunargetu við Ísland.
Verkefninu er nú lokið, en ekkert er fast í hendi með frekari verkefni.
Landhelgisgæslan hefur unnið að verkefnum fyrir Sýslumanninn á Svalbarða í gegnum árin og hefur samstarf milli þyrlusveita sýslumannsins og LHG verið mikið.
„Landhelgisgæslan telur afar mikilvægt að efla samstarf leitar- og björgunaraðila á Norður-Atlantshafi og hefur verkefnið eflt enn frekar samstarf milli Svalbarða og Íslands um öryggismál á Norðurslóðum.“
Innlent