Enski boltinn

Hinn Neville-bróðirinn ræðst á United: Þarf að eyða 20 milljörðum í viðbót

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, gagnrýndi sína gömlu félaga harðlega eftir 5-3 tapið gegn nýliðum Leicester á sunnudaginn og sagði liðið vera mjúkt í miðjunni.

Nú ræðst bróðir hans, Phil Neville, sem spilaði fyrir United og þjálfaði það í fyrra, á sitt gamla félag, en hann starfar sem sérfræðingur BBC í dag. Gary starfar hjá Sky Sports.

„Ég veit að Manchester United eyddi 150 milljónum punda (30 milljörðum króna) í leikmenn. Það eru samt tveir félagaskiptagluggar - þar sem liðið þarf að eyða kannski samtals 100 milljónum punda (20 milljörðum króna) - þangað til það getur einu sinni hugsað um að vinna Englandsmeistaratitilinn,“ sagði Phil Neville í útvarpsviðtali á BBC í gærkvöldi.

Louis van Gaal fékk að eyða fúlgum fjár í sumar og keypti Ángel di María, dýrasta leikmann í sögu úrvalsdeildarinnar, AnderHerrera, DaleyBlind, Marcos Rojo, Luke Shaw og fékk Radamel Falcao að láni. En þetta er ekki nóg að mati Neville.

„Miðvarðarstaðan er ennþá vandamál. Það þarf líka að bæta við mönnum á miðjuna.“

Tyler Blackett, tvítugur strákur sem kemur úr unglingastarfi United, hefur byrjað alla fimm leikina til þessa í úrvalsdeildinni, en hann átti skelfilegan dag gegn Leicester og var rekinn af velli.

„Það þarf gæði, ekki bara einhverja menn sem til eru. United þurfti á heimsklassa mönnum að halda. Það voru engir slíkir í boði og þess vegna mun United halda áfram að leita að slíkum mönnum í næstu tveimur félagaskiptagluggum,“ sagði Neville.

„Ég er samt viss um að Chris Smalling verði góður og ég hef fulla trú á PhilJones. United er búið að kaupa mikið af erlendum leikmönnum en það má ekki gleyma ensku hryggjarsúlunni,“ sagði Phil Neville.

Manchester United er í tólfta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimm stig eftir fimm leiki gegn Swansea, Sunderland, Burnley, QPR og Leicester.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×