Erlent

Hóta að birta nektarmyndir af Watson í kjölfar ræðunnar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Emma Watson ásamt ónefndum túlki á ráðstefnunni um liðna helgi.
Emma Watson ásamt ónefndum túlki á ráðstefnunni um liðna helgi. visir/skjáskot
„Konur eiga ekki að þurfa að heyja þessa baráttu einar. Það er lykilatriði fyrir samfélagið að karlar og konur taki á þessu mikilvæga málefni saman,“ sagði leikkonan Emma Watson í ræðu á ráðstefnu UN Women í New York á laugardag.

Ræðan hefur vakið gríðarlega athygli og mestmegnis jákvæð viðbrögð en því miður hefur leikkonunni einnig verið hótað.

Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar víðsvegar um heiminn fjallað um nektarmyndir sem birtust á netinu af frægu fólki, þeirra á meðal bandarísku leikkonunni Jennifer Lawrence. Nú hafa stofnendur síðunnar 4Chan, sem birtu meðal annars nektarmyndirnar af Lawrence, gefið það út að Watson sé næst.

Eigendur síðunnar hafa sett á laggirnar sérstaka vefsíðu sem ber nafnið „Emma you are next“ og er fyrirhugað að birta nektarmyndir af henni á síðunni eftir fjóra sólahringa. Talið er að 20 milljón manns skoði síðu 4Chan mánaðarlega. Ekkert sem birtist á síðunni er ritskoðað.

Notendur hafa birt sprengjuhótanir á síðunni og skipst á barnaklámi. Heilbrigðisyfirvöld vestanhafs telja vefsíðuna geta verið skaðlega unglingum.

Watson hélt ræðuna í tilefni stofnunar samtakanna HeForShe en tilgangur þeirra er að virkja karlmenn um allan heim til þess að taka þátt í jafnréttisbaráttu kynjanna.

Sjálf segist Emma hafa upplifað kynjamisrétti frá því hún var átta ára en hún fékk að heyra að hún væri stjórnsöm þegar hún sýndi áhuga á því að leikstýra skólaleikriti.

Hér að neðan má sjá ræðuna í heild sinni. 


Tengdar fréttir

„Jafnréttisbaráttan er ekki einkamál kvenna“

HeForShe-herferð UN Women var formlega kynnt um helgina í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Herferðin hefur það að markmiði að fjölga körlum sem taka þátt í jafnréttisbaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×