Enski boltinn

Neville lætur United-menn heyra það: Þið eruð ekki nógu harðir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, fór ófögrum orðum um sitt gamla lið eftir 5-3 tap þess gegn nýliðum Leicester í gær.

United komst í 3-1 í leiknum, en hrundi gjörsamlega eftir að heimamenn minnkuðu muninn úr vítaspyrnu í seinni hálfleik. Nýliðarnir gengu á lagið og skoruðu þrjú mörk til viðbótar.

Varnarleikur Manchester United í leiknum var í besta falli hlægilegur, en liðið er nú í tólfta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og aðeins búið að vinna einn leik þrátt fyrir að eyða 140 milljónum punda í nýja leikmenn.

„Fram á við var United miklu betra en það hefur verið undanfarin misseri og það er jákvætt,“ sagði Neville í myndveri Sky Sports eftir leikinn.

„En í fyrri hálfleik vann Leicester alla bolta sem sparkað var langt fram völlinn, hvort sem um er að ræða skallaeinvíg eða seinni boltann. Í seinni hálfleik var ranglega dæmt víti á United, en leikmennirnir eru samt mjúkir.“

„Það er enginn spurning um að Manchester United-liðið er mjúkt í miðjunni. Leikmennirnir eru ekki nógu harðir.“

„Þið sáuð hvernig þetta var hérna [í leik Man. City og Chelsea]. Í hvert einasta skipti sem Diego Costa reyndi að fara í boltann var hann laminn af Mangala og það sama var í gangi hinum megin hjá JohnTerry og GaryCahill. Mér fannst miðjumennirnir þrír og varnarlína United bara tekinn í bakaríið af Leicester,“ sagði Gary Neville.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×