Erlent

Sammælast um friðaráætlun fyrir Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Ríkisstjórnin í Úkraínu og aðskilnaðarsinnar hafa sammælst um friðaráætlun til að binda endi á átökin sem geisað hafa í austurhluta landsins síðustu mánuði.

Áætlunin er í níu liðum og felst meðal annars í að koma upp þrjátíu kílómetra löngu hlutlausu svæði, banni við flugi herþotna yfir ákveðið landsvæði í austurhluta Úkraínu og bann við þjónustu erlendra málaliða.

Ákveðið var að vinna að gerð samkomulagsins á fundi Petró Pórósjenkó Úkraínuforseta og Vladimír Pútín Rússlandsforseta í hvítrússnesku höfuðborginni Minsk þann 5. september þar sem samið var um vopnahlé.

Rúmlega þrjú þúsund manns hafa látið lífið í átökum milli stríðandi fylkinga í héruðunum Donetsk og Luhansk síðan í apríl.

Vopnahléssamkomulagið hefur margoft verið brotið, en er þó enn í gildi.

Úkraínustjórn hafa sakað Rússa um að afhenda aðskilnaðarsinnum á bandi Rússlandsstjórnar vopn og að hafa sent rússneska hermenn inn í héruðin Donetsk og Luhansk. Rússnesk stjórnvöld hafa hins vegar hafnað öllum slíkum ásökunum.

Í frétt BBC kemur fram að samkomulagið náðist að loknum löngum og ströngum viðstæðum milli fulltrúa Úkraínustjórnar, Rússlandsstjórnar, aðskilnaðarsinna og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×