Viðskipti innlent

Gaf sjálfum sér nýjan síma í afmælisgjöf

Atli Ísleifsson skrifar
Hörður Lárusson var ánægður með afmælisgjöfina frá sér til sín.
Hörður Lárusson var ánægður með afmælisgjöfina frá sér til sín. Mynd/Nova
„Ég á reyndar afmæli svo dagurinn byrjaði á því að ég fékk afmælisóskir frá börnunum mínum, fékk mér kaffi en svo fór ég í Kringluna, og keypti mér síma svona í tilefni dagsins,“ segir Hörður Lárusson, grafískur hönnuður, í samtali við Vísi.

Hörður segir að sér hafi verið tilkynnt af starfsfólki Nova að hann hafi verið fyrstur til að kaupa iPhone 6 á landinu. „Það var nú alls ekki meiningin að reyna að eignast fyrsta eintakið hérna á Íslandi. En þetta kemur kannski fólkinu í kringum mig ekki endilega neitt mikið á óvart. Þetta er það sem maður leyfir sér.“

Síminn, iPhone 6 (16GB) kostaði 159.990 krónur í staðgreiðslu í þessu takmarkaða upplagi en á vef Nova segir að verðið muni líklega verða 119.990 krónur þegar síminn kemur svo formlega til Íslands.

Hörður ákvað þó að leyfa sér að fá símann í dag þó að hann hafi verið dýrari. „Alveg frá því að fyrsti síminn kom þá hef ég haft fyrir því að redda mér símum og svoleiðis snemma. Þar sem þetta hitti þannig á að þetta gerðist á afmælisdeginum mínum þá fannst mér það þess virði.“

Hörður var áður með iPhone 5s og segist vera ánægður með nýja símann. „Ég er að tala í hann núna. Það var ekki lengi gert að koma honum í gagnið. Mér líst vel á hann. Ég er harður Apple-maður, hef alltaf verið, og er mjög ánægður með þennan.“

Aðspurður hvort hann taki eftir miklum mun á nýja og gamla símanum segir hann svo vera. „Það er fyrst og fremst stærðin á honum. Skjárinn er töluvert stærri og hann er allur mýkri þegar maður heldur á honum. Þetta er einhvern veginn allt annar sími að vera með.“

Hörður segir slatta af fólki hafa verið í Kringlunni í morgun. „Það var nú reyndar svo mikið af starfsfólki líka svo ég þurfti ekki að bíða neitt mjög lengi. En það var vel af fólki að skoða og prófa símann.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×