Erlent

Tyrkneskum gíslum sleppt

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Vísir/AFP
Tæplega 50 tyrkneskum gíslum sem hefur verið haldið föngum af hryðjuverkamönnum Íslamska ríkisins í Írak var sleppt í morgun. Forsætisráðherra Tyrklands segir að þaulskipulögð áætlun hafi gengið eftir og neitar að hryðjuverkamönnunum hafi verið borgað lausnargjald.

49 starfsmenn sendiskrifstofu Tyrklands í borginni Monsul í norðurhluta Íraks, þar af 46 af tyrkneskum uppruna, voru teknir höndum þegar hryðjuverkamenn Íslamska ríkisins réðust inn í borgina í júní síðastliðnum. Meðal gíslanna voru diplómatar og fjölskyldur þeirra, þar á meðal fjöldi barna, og hermenn sem sinntu öryggisgæslu á sendiskrifstofunni.

Í fjóra mánuði hafa tyrknesk stjórnvöld leitaað leiða til að fá borgurum sínum sleppt og hafa neitað að taka þátt í hernaðaraðgerðum gegn hryðjuverkasamtökunum vegna þessa.

Neita að hafa borgað lausnargjald

Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, tilkynnti í morgun að gíslunum hefði verið sleppt og að tyrkneska leyniþjónusan hafi fylgt fólkinu til Tyrklands. Það er að sögn við góða heilsu og braust fram mikil hamingja þegar fólkið hitti ættingja sína á flugvellinum í Ankara í morgun.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, hrósaði forsætisráðherranum og kollegum hans fyrir að hafa tekist að frelsa Tyrkina í Írak. Hann sagði að áætlunin hefði verið þaulskipulögð. Erdogan vildi ekkert gefa upp um hvort að tyrknesk stjórnvöld hafi borgað hryðjuverkasamtökunum fyrir að sleppa gíslunum. Vestrænir fjölmiðlar telja líklegt að svo sé því gíslunum var sleppt án átaka.

Landamæri Tyrklands liggja að norðurhluta Íraks. 30 tyrkenskir flutningabílstjórar voru teknir höndum af hryðjuverkasamtökum Íslamska ríkisins í júní í sumar en var sleppt mánuði síðar eftir að samninga tókust.

Vígamenn íslamska ríkisins hafa hertekið stór landsvæði í Írak og í Sýrlandi. Talið er að fjöldi hermanna sem samtökin hafi yfir að ráða sé um 30 þúsund. Bandaríkjaher hefur gert yfir 170 lofrárásir í Írak frá því í ágúst. Frakkar gerðu sína fyrstu loftárás á svæðinu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×