Innlent

Lögreglumaður grunaður um brot í starfi: „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Lögreglumaðurinn er talinn hafa brotið af sér með alvarlegum hætti í starfi. Brotið snýr þó ekki að skjólstæðingum lögreglunnar. Mynd tengist frétt ekki beint.
Lögreglumaðurinn er talinn hafa brotið af sér með alvarlegum hætti í starfi. Brotið snýr þó ekki að skjólstæðingum lögreglunnar. Mynd tengist frétt ekki beint. Vísir / Haraldur
Grunur leikur á að lögreglumaður við embætti lögreglunnar á Seyðisfirði hafi brotið af sér í starfi með alvarlegum hætti. Málið kom upp í lok ágúst og var tilkynnt til ríkissaksóknara sem fól í framhaldinu lögreglunni á Eskifirði að rannsaka málið.

„Ég vil helst ekki tjá mig um það á þessu stigi, þetta er bara til rannsóknar,“ segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Eskifirði, aðspurður um eðli brotsins. „Þetta snýst um innri málefni og er að okkar mati mjög alvarlegt.“  

Jónas segir þó brotið ekki snúa beint að skjólstæðingum lögreglunnar. „Þetta snýst ekki um þriðja aðila, snýst ekki um fólkið sem við erum að þjóna beint en er samt ömurlegt,“ segir hann.

Lögreglumaðurinn sem um ræðir hefur enn ekki verið yfirheyrður og ekki ljóst hvenær skýrsla verðu tekin af honum. Ekki liggur því fyrir hvort lögreglumaðurinn gangist við brotunum sem grunur er uppi um að hann hafi framið.

„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum,“ segir Jónas en lögreglumanninum hefur verið vikið tímabundið frá störfum.

Ekki liggur fyrir hvenær rannsókn málsins líkur en hún er umfangsmikil. „Við erum að safna gögnum og skoða ákveðna ferla. Þetta tekur sinn tíma,“ segir hann. Grunur um brotin vöknuðu innan embættis lögreglustjórans á Seyðisfirði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×