Fótbolti

Pahars: Engir brandarar á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Riga skrifar
Pahars á blaðamannafundinum í dag.
Pahars á blaðamannafundinum í dag. Vísir/Valli
Marian Pahars, landsliðsþjálfari Lettlands, hrósaði landsliði Íslands á blaðamannafundi sínum á Skonto-leikvanginum nú síðdegis. Hann segist einnig afar hrifinn af þjálfaranum Lars Lagerbäck.

„Ísland er með gott lið fyrst og fremst. Það eru góðir leikmenn í liðinu og það er afar vel þjálfað. Við höfum ekki áhyggjur af einstökum leikmönnum heldur af því hvernig liðið spilar sem heild,“ sagði Pahars í dag.

„Lars er frábær þjálfari og verður gott að fá að mæta honum. Ég hitti hann nýlega á ráðstefnu í St. Pétursborg. Við áttum þar gott spjall og hann sagði nokkra brandara. Það verða þó engir brandarar sagðir á morgun - þá tekur alvaran við.“

Pahars sagði að það væri margir góðir leikmenn í íslenska liðinu og nefndi sérstaklega þá Gylfa Þór Sigurðsson, Kolbein Sigþórsson og Alfreð Finnbogason. En hann gerði lítið úr þeirri staðreynd að Lettland hafi gengið vel að verjast í síðustu leikjum sínum og haldið hreinu í nokkrum í röð.

„Það er ekki tölfræði sem ég skoða sérstaklega fyrir þennan leik. Eina tölfræðin sem ég hef áhuga á er að við skorum fleiri mörk en andstæðingurinn. Við viljum fyrst og fremst fá góð úrslit.“

Hann sagði erfitt að meta möguleika Íslands á að komast upp úr riðlinum. „Það kemur betur í ljós eftir næstu tvo leiki. Sigurinn á Tyrklandi var mikilvægur en þessi leikur og sá næsti mun hafa mikið að segja um framhaldið.“

Pahars sagðist enn fremur ekki hafa áhyggjur af liðinu vegna fjarveru lykilmanna sem margir eiga við meiðsli að stríða. „Ég er einfaldlega ekki að hugsa um þá leikmenn. Svo einfalt er það.“


Tengdar fréttir

Pahars leggur mikla áherslu á leikskipulag

Marian Pahars er einn þekktasti knattspyrnumaður Lettlands hin síðari ár en þessi 38 ára fyrrum sóknarmaður Southampton er nú landsliðsþjálfari Lettlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×