Innlent

„Bæta þarf kjör svo heilbrigðiskerfið verði samkeppnishæft“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðný Friðriksdóttir, Formaður hjúkrunarráðs LSH.
Guðný Friðriksdóttir, Formaður hjúkrunarráðs LSH.
Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala hefur sent frá sér ályktun vegna yfirvofandi verkfalls hjá læknum.

Yfir 80% af atkvæðisbærum læknum tók þátt í kosningunni og yfir 95% þeirra samþykktu fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir sem gert er ráð fyrir að hefjist þann 27. október næstkomandi.

Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala lýsir yfir miklum áhyggjum vegna yfirvofandi verkfalls lækna. Læknar séu mikilvægur hluti heilbrigðisþjónustu og mun verkfall þeirra skerða starfsemi hennar verulega.

„Biðlistar eftir þjónustu munu lengjast og aukið álag verður á aðra heilbrigðisstarfsmenn sem getur haft áhrif á öryggi sjúklinga,“ segir í ályktuninni.

Ítrekað hafi verið bent á mikið álag í heilbrigðiskerfinu og skort á læknum og hjúkrunarfræðingum. „Bæta þarf kjör og starfsaðstæður þeirra svo heilbrigðiskerfið á Íslandi verði samkeppnishæft við önnur lönd.“

Í ályktuninni segir að mikilvægt sé að horfa til framtíðar og tryggja að hér verði til staðar heilbrigðisstarfsfólk með færni, reynslu og þekkingu svo hægt sé að veita góða heilbrigðisþjónustu.

„Stjórn hjúkrunarráðs hvetur stjórnvöld til að koma til móts við lækna í þessari deilu og leysa úr henni sem allra fyrst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×