Innlent

„Ekki góð meðferð á ríkisfjármunum“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Fréttablaðið og Stöð 2 fjölluðu í gær um að velferðarráðherra hyggðist fela Barnaverndarstofu að gera 500 milljóna samning við meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði, þrátt fyrir að Barnaverndarstofa hafi alfarið lagst gegn því, þar sem nýting á úrræðinu sé ófullnægjandi.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segir að samningurinn sé ekki besta ráðstöfunin fyrir börnin sem eiga í hlut, þar sem úrræðið sé afar illa nýtt. Þá telur hún ekki vera fagleg rök fyrir áframhaldandi samningum við Háholt, þar sem bæði Barnaverndarstofa og Innanríkisráðuneytið hafa bent á slíkt úrræði ætti að vera á höfuðborgarsvæðinu þar sem sérhæfð fagþjónusta sé fyrir hendi.

„Þetta er ekki góð meðferð á ríkisfjármunum, þar sem þarna er verið að gera 500 milljón króna samning til þriggja ára, á meðan við setjum 1.200 milljónir á í barnavernd á ári. Barnaverndarnefnd og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa svo bent á að þessa fjármuni væri hægt að nýta með miklu betri hætti í þágu barna," segir Sigríður Ingibjörg.

En mun hún kalla ráðherra fyrir velferðarnefnd og krefjast skýrari svara?

„Fulltrúi okkar samfylkingarfólks í fjárlaganefnd, Oddný Harðardóttir, hefur farið fram á að funda um málið í fjárlaganefnd enda varðar þetta mikla fjármuni. Þetta er samningur sem eðlilegt er að fjárlaganefnd fari yfir."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×