Innlent

Segja ráðherra útiloka Barnaverndarstofu frá stefnumótun

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Starfsfólk Barnaverndarstofu telur Eygló Harðardóttur velferðarráðherra útiloka það kerfisbundið frá stefnumótunarvinnu í barnaverndarmálum en velferðarráðuneytið hyggst nú endurnýja fimm hundruð milljóna króna samning við meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði, þrátt fyrir að Barnaverndarstofa hafi ítrekað lagst gegn því.

Háholt er meðferðarúrræði fyrir unglinga á aldrinum fimmtán til átján ára, en það er mat Barnaverndarstofu að fénu sé betur varið í byggingu nýs meðferðarhúsnæðis fyrir unglingana á höfuðborgarsvæðinu. Sem stendur er rými fyrir þrjá unglinga á Háholti en þar starfa alls ellefu starfsmenn auk kennara og sálfræðings í hlutastarfi. Ljóst er að fáir nýta sér úrræðið, en stundum er þar enginn unglingur í vistun svo vikum skiptir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er þetta er ekki eina dæmið um að ráðherra nýti sér ekki sérfræðiþekkingu Barnaverndarstofu, og er það tilfinning starfsfólks þar að það sé kerfisbundið útilokað frá stefnumótunarvinnu. Ekki hefur verið óskað eftir þekkingu þeirra við gerð framkvæmdaráætlunar í barnavernd fyrir næsta ár, þau sitja ekki í nefnd um mótun fjölskyldustefnu og eiga ekki skipaðan fulltrúa í Velferðarvaktinni.

Það er eftirtektarvert fyrir þær sakir að samkvæmt sjöundu grein barnaverndarlaga á Barnaverndarstofa að vera félagsmálaráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum. Eygló vísar þessari gagnrýni á bug.

„Nú er það þannig að allir sem hafa haft áhuga á því að koma inn í Velferðarvaktina hafa fengið sæti í henni,“ segir Eygló. „Hvað varðar síðan mótun fjölskyldustefnu þá nær það yfir mjög fjölþætt svið og ég hef raunar ekki fengið upplýsingar um það áður að Barnaverndarstofa hafi áhuga á því að koma að þeirri vinnu. Það hefði náttúrulega verið mjög skemmtilegt.

Varðandi barnaverndaráætlunina, þá er það að sjálfsögðu þannig að ráðherra fer með yfirstjórn þess máls.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×