Lífið

"Hann hættir bráðum að hafa andlit í sjónvarp“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Haus Loga var klipptur inn á búk Jóa.
Haus Loga var klipptur inn á búk Jóa.
„Jói er greinilega orðinn of stór fyrir Ísland. Hann er farinn til Marokkó og það er voðalegt leyndarmál hvað hann er að gera þar. Hollywood bara kallaði,“ segir leikarinn og dagskrárgerðarmaðurinn Rúnar Freyr Gíslason.

Hann hefur undanfarna mánuði stjórnað útvarpsþættinum Bakaríið á Bylgjunni með leikaranum Jóhannesi Hauki Jóhannessyni, eða Jóa eins og hann er kallaður í daglegu tali. Nú er Jóhannes hins vegar í Marokkó við tökur á bandarískri sjónvarpsseríu og snýr ekki aftur fyrr en um miðjan desember. Rúnar Freyr dó ekki ráðalaus og fékk mann í hans stað.

„Þegar svona gerist þá nær maður í mann sem klikkar aldrei. Það er Logi,“ segir Rúnar Freyr og vísar í sjónvarpsstjörnuna Loga Bergmann Eiðsson.

„Ég er aðeins að hjálpa Loga því hann hættir bráðum að hafa andlit í sjónvarp. Þetta gamla andlit hentar útvarpi mjög vel því röddin stendur fyrir sínu,“ segir Rúnar Freyr kíminn.

„Það er mjög gott að vinna með Loga. Við erum fínir vinir. Hann var alltaf að ráða mig í Spurningabombuna og ég ákvað að borga honum til baka með því að ráða hann í þáttinn,“ segir leikarinn en Bakaríið er í loftinu alla laugardaga frá 9 til 12.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×