Innlent

RÚV yfirskuldsett

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Ríkisútvarpið átti ekki fyrir greiðslu af skuldabréfi sem var á gjalddaga í dag og hefur því verið samið um að fresta gjalddaga um þrjá mánuði. Félagið er yfirskuldsett og nema skuldir RÚV 5,5 milljörðum króna. Stærstur hluti þeirra vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV.

„Félagið er yfirskuldsett og skapar ekki nægt sjóðsstreymi til að standa undir greiðslum næsta árs afborgana og vaxtagreiðslna. Því er nauðsynlegt fyrir RÚV að minnka skuldir og auka veltufé til þess að tryggja rekstrarhæfi félagsins,“ segir í tilkynningunni.

Sem kunnugt er réðst fyrri framkvæmdastjórn í umfangsmiklar niðurskurðaraðgerðir í lok síðasta árs með það að markmiði að koma rekstri RÚV í jafnvægi.  Aðgerðirnar dugðu þó ekki til þess að jafnvægi næðist og útlit er fyrir umtalsverðu tapi á rekstrarárinu 2013-2014. Í tilkynningunni segir að meira þurfi til að núverandi tekjur standi undir starfsemi RÚV.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir þetta mikil vonbrigði. Félagið sé augljóslega enn ekki náð að losa sig við þann fortíðarvanda sem það hefur lengi glímt við.

„Nú liggur fyrir nokkuð skýr mynd af stöðu RÚV og ég bind vonir við að menn vinni sameiginlega að því að treysta grundvöll RÚV og þannig skapa viðundandi aðstæður fyrir Ríkisútvarpið til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem af því er vænst í lögum – og ekki síður af þjóðinni. Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta lýðræðis- og menningarstofnun þjóðarinnar og við viljum tryggja að það standi undir nafni sem útvarp allra landsmanna,“ segir Magnús Geir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×