Erlent

Hafna fullyrðingum um kafbát í vanda

Leit sænska sjóhersins að kafbáti í sænska Skerjagarðinum hefur engan árangur borið. Talið er að kafbáturinn sé rússneskur og eigi við einhvers konar vélarbilun að stríða en Rússar vísa þessum fullyrðingum á bug.

Um fimmtán herskip sænska sjóhersins auk minni báta leita nú á svæðinu og en skipin eru meðal annars búin neðansjávarsprengjum til að þvinga kafbáta upp á yfirborðið. Talið er kafbáturinn sé rússneskur og eigi við einhvers konar vélarbilun að stríða.

Á fimmtudag hleruðu sænsk yfirvöld talstöðvarsamtal sem fór fram á neyðarrás rússneska kafbátaflotans sem skýtur frekari stoðum undir þá kenningu að báturinn sé mögulega laskaður.

Stórt rússneskt flutningaskip hefur haldið sig rétt fyrir utan sænsku landhelgina en fram kemur í sænskum fjölmiðlum að skipið hafi á tímum kalda stríðsins verið einhvers konar móðurskip fyrir litla kafbáta. Skipið sigldi af stað í átt til Rússlands í gærkvöldi og hvarf af ratsjá eftir að slökkt var á sjálfvirkum staðsetningarbúnaði þess. Skipið birtist síðan aftur við Nynäshamn í morgun sem liggur um 60 kílómetra fyrir sunnan Stokkhólm.

Rússnesk stjórnvöld vilja hins vegar ekki kannast við það að einhvers konar neyðarástand í sé gangi og er fullyrðingum þessa efnis hafnað í yfirlýsingu sem varnarmálaráðuneyti landsins sendi frá sér í morgun. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×