Innlent

Gæti þurft að hætta með leikskólabraut FG

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/gva
Mikilvægt er að tryggja rétt nemenda til framhaldsnáms óháð aldri. Þetta segir skólameistari Fjölbrautarskólans í Garðabæ sem segir fyrirhugaðar breytingar sem eiga að takmarka aðgengi nemenda 25 ára og eldri að framhaldsskólum geta orðið til þess að hætta þurfi með leikskólabraut sem kennd er við skólann.

Stjórnvöld ætla að skera niður fjárveitingar til þeirra sem stunda nám til stúdentsprófs og eru eldri en 25 ára. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að með þessu sé verið að efla framhaldsskólana og að úrræði verði tryggð fyrir eldri nemendur með öðrum leiðum.

Ekki eru allir sáttir við að fara eigi þessa leið og hafa skólastjórnendur sumir áhyggjur af því hvað verði um þá nemendur sem eru eldri en 25 ára. Kristinn Þorsteinsson er skólameistari Fjölbrautarskólanum í Garðabæ. Hann segir að þessi ákvörðun komi til með að hafa afleiðingar en í hans skóla sé sérstök leikskólabraut.

Um fimmtíu nemendur eru í dag á þeirri braut og flestir eldri en 25 ára. Kristinn segir að skoða þurf hvort að hætta eigi með þá braut. Þar eru nú meira og minna konur sem komnar eru yfir 25 ára aldur og hafa jafnvel ekki stundað nám áður.

Þá segir hann óljóst hver kostnaðurinn verði við námið ef það færist annað eins og í símenntunarstöðvar. Hann veltir fyrir sér hvort ekki sé æskilegt að tryggja rétt allra til framhaldsnáms óháð aldri. Þannig að þeir nemendur sem ákveði að fara út á vinnumarkaðinn eftir grunnskóla geti skráð sig í framhaldsnám síðar.

Þannig telur Kristinn að tryggja eigi rétt allra til þriggja eða fjögurra og hálfs árs náms óháð aldri þeirra.


Tengdar fréttir

Aldurstakmörk sett á nemendur í framhaldsskólum

Þingmaður Samfylkingarinnar segir aðgerðir menntamálaráðherra fækka framhaldsskólanemum um 900. Ráðherra segist ætla að efla framhaldsskólanna og auka framlög á hvern nemanda.

Kennarar tala um viðsnúning stjórnvalda í menntamálum

Kennarasamband Íslands harmar að í nýkynntu fjárlagafrumvarpi ársins skuli enn vera þrengt að framhaldsskólum landsins. Stjórn sambandsins segir í ályktun að verið sé að skerða aðgengi ungs fólks að námi. Í ályktuninni segir að rekstur framhaldsskóla landsins sé fyrir löngu kominn að þolmörkum. Það skjóti því skökku við að á sama tíma og stjórnvöld afþakki tekjustofna sé boðaður áframhaldandi niðurskurður í skólakerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×