Erlent

Stafur Kim ætlaður sem tákn um visku

Atli Ísleifsson skrifar
Kim Jong-un tók við leiðtogaembættinu í Norður-Kóreu árið 2011.
Kim Jong-un tók við leiðtogaembættinu í Norður-Kóreu árið 2011. Vísir/AFP
Nýr göngustafur Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, er ekki einungis á góðri leið með að verða eitt mest umtalaða stoðtæki í heimi alþjóðastjórnmála heldur einnig aðferð Kims til að snúa einum af veikleika sínum í styrkleika.

Þetta segir John Delury, sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu og prófessor við Yonsei-háskóla í Seúl.

„Þrátt fyrir að stafurinn sé merki um hrakandi heilsu Kims – hann kom nýverið fram í fyrsta sinn í fjörutíu daga eftir miklar vangaveltur um hvað hafi komið fyrir hann – þá er þetta jafnframt tákn um visku og aldur,“ segir Delury í samtali við Wall Street Journal.

Þegar Kim tók við leiðtogaembættinu í Norður-Kóreu að föður sínum látnum árið 2011, var reynt að leggja áherslu á ungan aldur Kims sem merki um kraft og þrótt.

„Nú standa þeir frammi fyrir því vandamáli að vera með rúmlega þrítugan mann sem á í raun ekki að haltra,“ segir Delury. „Þeir reyna að lagfæra það með því að segja að hann þjáist fyrir þjóð sína en einnig að hann hafi þroskast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×