Innlent

Segir Framsókn ekki hafa sóst eftir eignarhlut í DV

Atli Ísleifsson skrifar
Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins.
Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins. Vísir/Valli
Hrólfur Ölvisson framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, segir það rangt sem fram hefur komið í frétt Kjarnans og öðrum fjölmiðlum að Framsóknarflokkurinn hafi sóst eftir því að eignast hlut í DV.

Í yfirlýsingu frá Hrólfi segir að hvorki hann fyrir hönd flokksins, né Framsóknarflokkurinn hafi farið þessa á leit og að fullyrðingar Ólafs Magnússonar þar um séu rangar.

Hrólfur segir að Ólafur Magnússon hafi nokkrum sinnum komið á hans fund til að ræða ýmis persónuleg málefni, bæði fjárhagsleg og önnur. „Aldrei var einu orði minnst á að Framsóknarflokkurinn hefði hug á að eignast hlut í blaðinu, en Ólafur hafði orð á því að fyrra bragði að DV væri í fjárþröng og þyrfti á auknu hlutafé að halda.“

Í frétt Kjarnans kom fram að Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú og fyrrum stjórnarformaður DV, hafi sagt að Hrólfur hafi þrívegis fundað með sér undir því yfirskini að menn tengdir Framsóknarflokknum vildu kaupa DV. Segir að fundirnir hafi átt sér stað á þeim tíma sem Ólafur var stjórnarformaður DV, en hann sagði sig úr stjórninni í maí í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×