Fótbolti

Sif ólétt og verður lítið með á árinu 2015

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif Atladóttir.
Sif Atladóttir. Vísir/Getty
Sif Atladóttir verður ekki með íslenska landsliðinu í fótbolta á næstu mánuðum en miðvörðurinn snjalli á von á sínu fyrsta barni. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun.

Sif missti því ekki af bikarúrslitaleiknum í ágúst eða landsleikjunum í haust vegna bakmeiðsla eins og gefið var út á þeim tíma heldur var hún orðin ólétt. Sif er komin fjóra mánuði á leið samkvæmt frétt Morgunblaðsins og á að eiga barnið næsta vor.

Sif er gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir íslenska landsliðið og þá var hún fyrirliði Kristianstad-liðsins þefar hún datt út. Sif er orðin 29 ára gömul og hefur spilað með sænska liðinu frá 2011 en hún hefur spilað 53 A-landsleiki fyrir Ísland.

Sif mun væntanlega missa af öllum verkefnum landsliðsins fram á haust og þá verður hún örugglega ekki með Kristianstad-liðinu fyrri hluta tímabilsins.  Sif verður því lítið með sínum liðum á árinu 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×