Innlent

IS eyðileggur menningarverðmæti í Írak

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mitra-hof í borginni Hatra er á heimsminjaskrá UNESCO.
Mitra-hof í borginni Hatra er á heimsminjaskrá UNESCO. Vísir/Getty
Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið (IS) hafa eins og kunnugt er myrt og pyntað fjölda manns í Írak og Sýrlandi seinustu mánuði. Samtökin hafa einnig farið eyðilagt fjölda menningarverðmæta í Írak, að því er CNN greinir frá.

Fólkið sem byggði Mesópótamíu þúsundum ára fyrir Krist voru miklir frumkvöðlar á sviði stærðfræði, stjörnufræði og bókmennta. Saga þessa fólks er hluti af menningarsögu Írak og IS er einnig í stríði við þá sögu.

Hryðjuverkasamtökin hafa sprengt upp tilbeiðslustaði minnihlutahópa, til dæmis kristinna manna og Túrkmena. Það sem samtökin hafa ekki eyðilagt selja þau á svörtum markaði.

Dæmi um eyðilegginguna er borgin Mosul í norðurhluta Íraks. Þar var mikið um fornminjar en IS réðust inn í borgina í júní og gjöreyðilögðu mikið af minjunum.

Þá óttast heimsminjaskrá UNESCO að IS muni einnig eyðileggja hina fornu borg Hatra sem er suður af Mosul. IS hertóku borgina fyrir nokkrum mánuðum og nota hana til að geyma vopn, þjálfa hermenn og taka fanga af lífi.

UNESCO hefur biðlað til alþjóðafélagsins um að standa vörð um líf fólks í Írak, menningarverðmæti þess og þjóðareinkenni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×