Enski boltinn

Landsliðslæknir Spánverja svarar Mourinho fullum hálsi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Diego Costa hefur ekki spilað síðustu leiki Chelsea vegna meiðsla.
Diego Costa hefur ekki spilað síðustu leiki Chelsea vegna meiðsla. vísir/getty
Spænska landsliðið og José Mourinho eru komin í hart vegna ummæla Portúgalans um meiðsli Diego Costa, framherja Chelsea, á dögunum.

Mourinho er vægast sagt pirraður vegna þess að Costa hefur ekki spilað síðan hann tók þátt í tveimur leikjum með spænska landsliðinu á þremur dögum í undankeppni EM 2016 fyrr í mánuðinum.

Hann sagði í samtali við portúgalska blaðamenn að meiðslin væru spænska landsliðinu að kenna vegna meðhöndlunar á framherjanum í leikjunum gegn Slóvakíu og Lúxemborg.

Costa tognaði aftan í læri og fékk einnig vírus sem kom honum á sjúkrahús. Mourinho sagði það hafa aftrað spænska landsliðsframherjanum í endurhæfingu sinni.

„Costa sagði ekkert við okkur um tognun aftan í læri. Þegar hann kom til móts við landsliðið sagðist hann eiga við minniháttar meiðsli að stríða í náranum, en ekkert alvarlegt,“ segir José Garcia Cota, læknir spænska landsliðsins, við IB Times.

„Hann spilaði líklega tognaður aftan í læri fyrir Chelsea en kvartaði ekkert yfir því við okkur. Hann var meðhöndlaður af sjúkraþjálfurum okkar eins og hver annar leikmaður og átti í engum vandræðum með að klára æfingarnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×