Sport

Þjálfari badmintonlandsliðsins: Skandall að mínu viti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísland vann einn leik í undankeppninni.
Ísland vann einn leik í undankeppninni. Vísir/Vilhelm
Íslenska badmintonlandsliðið vann Tyrki 3-2 í lokaleik sínum í undankeppni EM í TBR-húsinu í dag. Viðureignin var sérstök að því leyti að Tyrkirnir gáfu bæði leiki sína í tvíliðaleik karla og tvenndarleik, að þeirra sögn vegna meiðsla.

Í tvíliðaleik karla var staðan 4-7 fyrir Tyrkland þegar annar Tyrkinn gaf það til að kynna að hann hefði tognað á læri. Í tvenndarleiknum, sem réði úrslitum í viðureigninni, var staðan 5-0 fyrir Tyrkland þegar Ramazan Özturk kenndi sér meins í öxl.

Frímann Ari Ferdinandsson, landsliðsþjálfari Íslands, telur hins vegar að annað búi að baki og er langt frá því að vera sáttur með þessa framkomu Tyrkja.

„Þetta var súrsætur sigur, það er alltaf gaman að vinna en að vinna svona var bara hundleiðinlegt og þetta er bara skandall að mínu viti,“ sagði Frímann í samtali við RÚV, en hann telur að Tyrkirnir hafa gefið leikina svo þeir kæmust fyrr í flug.

„Ég hef trú á því að þetta hafi verið viljandi gert svo þeir næðu fluginu. Við hefðum viljað vinna þá á réttum forsendum en ekki svona. Þetta var einhver leikur að reyna að flýta fyrir svo þeir kæmumst héðan fyrr, ekkert annað." sagði Frímann ennfremur.

Ísland, Tyrkland og Króatía unnu öll einn leik í riðlinum, en Spánn vann alla sína leiki og verður því meðal þátttökuþjóða á EM í Belgíu á næsta ári.


Tengdar fréttir

4-1 tap gegn Spánverjum | Sigur í tvíliðaleik karla

Íslenska landsliðið í badminton hefur tapað báðum leikjum sínum í forkeppni Evrópumóts landsliða. Í gær tapaði liðið fyrir Króatíu 4-1, en í dag beið liðið lægri hlut fyrir Spáni 4-1.

Ísland vann Tyrkland í lokaleiknum

Íslenska landsliðið í badminton vann Tyrki 3-2 í lokaleik fimmta riðils undankeppni Evrópumótsins í TB-húsinu í dag. Leikurinn var sérstakur að því leiti að Tyrkir gáfu bæði tvíliðaleik karla og tvenndarleik rétt eftir að leikirnir hófust, að eigin sögn vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×