Fyrsti leikurinn var einliðaleikur karla þar sem Kári Gunnarsson mætti Emre Vural. Emre sigraði fyrstu lotuna 21-15. Næstu tvær lotur spilaði Kári af mikilli yfirvegun og sigraði glæsilega 21-14 og 21-10.
Sara Högnadóttir spilaði síðan einliðaleik kvenna fyrir Ísland gegn Neslihan Yigit. Neslihan sem er númer 92 á heimslistanum hafði yfirhöndina í leiknum allan tímann og sigraði örugglega 21-9 og 21-6.
Í tvíliðaleik karla mættu þeir Kári Gunnarsson og Atli Jóhannesson Emre Lale og Emre Vural. Þegar staðan var 4-7 fyrir Tyrkland sagði annar Tyrkjanna að hann hefði tognað í lærinu og að þeir yrðu að gefa leikinn. Fóru þeir rakleitt úr húsi að því loknu.
Því næst mættu þær Özge Bayrak og Neslihan Yigit Sigríði Árnadóttur og Snjólaugu Jóhannsdóttur í tvíliðaleik kvenna. Þær tyrknesku sem eru númer 50 á heimslistanum voru geysi sterkar og sigruðu íslensku stelpurnar örugglega 21-7 og 21-10.
Þegar þarna var komið við sögu var staðan orðin 2-2 í viðureign Íslands og Tyrklands og ljóst að tvenndarleikurinn myndi ráða úrslitum. Fyrir Íslands hönd léku þau Daníel Thomsen og Rakel Jóhannesdóttir og fyrir Tyrki þau Ramazan Özturk og Neslihan Kilic. Í stöðunni 5-0 fyrir Tyrkland kenndi Ramazan sér meins í öxl og gáfu Tyrkirnir því leikinn.
Ísland, Tyrkland og Króatía unnu einn leik hvert en Spánn vann alla sína leiki og tryggði sér með því þátttökurétt á Evrópumótinu sem fram fer í Belgíu í febrúar.

