Sport

4-1 tap gegn Spánverjum | Sigur í tvíliðaleik karla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska landsliðið í badminton hefur tapað báðum leikjum sínum í forkeppni Evrópumóts landsliða. Í gær tapaði liðið fyrir Króatíu 4-1, en í dag beið liðið lægri hlut fyrir Spáni 4-1.

Þeir Atli Jóhannesson og Kári Gunnarsson unnu eina leik Íslands í rimmunni, í tvíliðaleik karla. Þeir unnu báðar loturnar, 21-19 og 21-14.

Í tvenndarleiknum töpuðu þau Daníel Thomsen og Rakel Jóhannesdóttir fyrir Ernesto Velazquez og Beatriz Corrales. Spánn vann fyrstu lotuna 21-13, en Daníel og Rakel unnu lotu tvö 21-12. Í oddalotunni höfðu þau spænsku hins vegar betur, 21-16.

Í einliðaleik kvenna tapaði Sara Högnadóttir fyrir Clöru Azumendi, en sú spænska er um 200 sætum oftar á heimslistanum. Azumendi vann í tveimur lotum, 21-16 og 21-10.

Áðurnefndur Kári Gunnarsson laut í gras fyrir Luis Enrique Penalver í þremur lotum í einliðaleik karla. Penalver vann þá fyrstu 21-13, en Kári sneri dæminu sér í vil í annarri lotu sem hann vann, 21-10. Í oddalotunni hafði sá spænski svo sigur, 21-15.

Í tvíliðaleik kvenna töpuðu þær Rakel Jóhannesdóttir og Snjólaug Jóhannsdóttir fyrir heimsmeistaranum í einliðaleik kvenna, Carolinu Marin, og stöllu hennar Isabel Fernandez. Þær spænsku unnu báðar loturnar, 21-16 og 21-15.

Ísland mætir Tyrkjum í síðasta leik riðilsins á morgun. Viðureignin hefst klukkan 13:00 í TBR-húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×