Innlent

Forsætisráðherra vissi ekki af uppsögnum í Stjórnarráðinu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Við erum mjög ánægð með það fólk sem vinnur í ræstingum og lítum á þær sem hluta af hópnum.“
"Við erum mjög ánægð með það fólk sem vinnur í ræstingum og lítum á þær sem hluta af hópnum.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra komst að því í fjölmiðlum að átján konum hefði verið sagt upp í Stjórnarráði Íslands. Hann furðar sig á myndbirtingum fjölmiðla af Stjórnarráðshúsinu þar sem engum var sagt upp í Stjórnarráðinu sjálfu.  Þetta kom fram í máli hans í viðtalsþættinum Reykjavík síðdegis í dag.

Öll ráðuneyti heyra undir Stjórnarráð Íslands en í tilkynningu frá Eflingu var ekki tilgreint í hvaða ráðuneytum konurnar störfuðu.

„Þar [í Stjórnarráðinu] erum við ekki að segja upp ræstingarfólki og það stendur ekki til. Við erum mjög ánægð með það fólk sem vinnur í ræstingum og lítum á þær sem hluta af hópnum. Reyndar vinna þær alveg einstaklega gott starf og það hefur ekki verið inni í myndinni,“ sagði Sigmundur.

Hann sagði mikilvægt að skapa traust á milli fólks á vinnustað og þá sér í lagi þegar það vinnan er unnin áberandi vel. „Ekki hvað síst í stjórnkerfinu þar sem jafnvel eru ýmis trúnaðargögn og menn þurfa að geta reitt sig á það að það séu allir með í liðinu. Þannig að við höfum ekkert verið að velta fyrir okkur að ráða annað fólk í ræstingarnar. Allavega veit ég ekki til þess og myndi vita af í mínu ráðuneyti.“

Talsvert hefur verið fjallað um tíðindi sem bárust frá Eflingu í gær um uppsagnir Stjórnarráðsins á ræstingarfólki. Sex þeirra kvenna sem misstu vinnuna eru eldri en sextíu ára og sjö á aldrinum fimmtíu til sextíu ára. Starfshlutfall þeirra var um 60-70 prósent og voru þær með um 260 þúsund krónur í laun á mánuði.




Tengdar fréttir

Ríkið segir upp átján konum

Konurnar eru allar íslenskar og eru á sextugs- og sjötugsaldri. Þær störfuðu við ræstingar og var starfshlutfall þeirra um 60-70 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×