Innlent

Kennslugögn fyrir einhverf börn í alla grunnskóla landsins

Bjarki Ármannsson skrifar
Rannveig Tryggvadóttir, til vinstri, og Ragnhildur Ágústsdóttir afhenda gögnin í dag.
Rannveig Tryggvadóttir, til vinstri, og Ragnhildur Ágústsdóttir afhenda gögnin í dag. Vísir/Ernir
Styrktarfélag barna með einhverfu afhenti í dag Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra og Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, sérkennslugögn fyrir einhverf grunnskólabörn. Gögnin, sem kosta rúmlega 4,3 milljónir króna, voru keypt fyrir féð sem safnaðist í söfnuninni Blár apríl og í Reykjavíkurmaraþoninu síðasta.

„Við erum algerlega í skýjunum,“ segir Ragnhildur Ágústsdóttir, formaður félagsins, og móðir tveggja drengja með einhverfu. Hún er hæstánægð með afrakstur söfnunarinnar í apríl, þar sem fyrirtæki og stofnanir voru meðal annars fengin til að lýsa hús sín blá til að vekja athygli á málstaðnum. Gögnin sem um ræðir eru heyrnarhlífar og kúlusessur sem eiga að reynast einhverfum börnum vel í skólastofum.

„Eftir að hafa ráðfært okkur við fagaðila ákváðum við að fjármagna kaup á þessum gögnum,“ segir Ragnhildur. Hún segir vandamál með skilúrvinnslu algeng meðal einhverfra grunnskólabarna og að sessunum og heyrnarhlífunum sé ætlað að lágmarka truflun og fá þau til að sitja lengur við efnið í hvert sinn.

„Þetta er einföld og ódýr útfærsla og við náum að gefa öllum grunnskólum á landinu fjögur stykki af hverju,“ segir hún. „Við hefðum getað keypt fáeina iPada sem einnig nýtast en kostnaðurinn við þá er mun meiri og því hefði verið hægt að koma færri til aðstoðar.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×