Enski boltinn

Gerrard gæti verið á leið til Bandaríkjanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Samkvæmt enskum fjölmiðlum gæti Steven Gerrard samið við bandaríska MLS-liðið New York Cosmos þegar samningur hans við Liverpool rennur út í sumar.

Gerrard hefur verið hjá Liverpool allan sinn feril en sagði í samtali við The Telegraph í síðustu viku að hann væri óviss um hvar hann myndi spila á næsta tímabili.

„Ég mun ekki hætta í sumar. Ég mun spila áfram. Við verðum að bíða og sjá til hvort það verði hjá Liverpool eða öðru félagi. Það er undir Liverpool komið að ákveða það,“ sagði Gerrard í viðtalinu.

Brendan Rodgers hefur greint frá því að félagið hefur hafið viðræður við Gerrard um nýjan samning sem verður 35 ára þegar núverandi samningur hans rennur út. „Kannski hefur liðið ekki spilað mjög vel í ár og það getur vel verið að athyglin beinist að Steven en mér hefur hann fundist frábært,“ sagði Rodgers.

Liverpool er í sjöunda sæti deildarinnar en liðið tapaði fyrir Newcastle um helgina, 1-0, og hefur aðeins unnið tvo af síðustu sjö leikjum sínum í deildinni. Liðið mætir Real Madrid í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.


Tengdar fréttir

Rodgers hefur fundað með umboðsmanni Gerrard

Brendan Rodgers hefur fundað með umboðsmanni Steven Gerrard og gert það ljóst að hann vilji halda Gerrard áfram hjá félaginu. Skilaboð Rodgers til eiganda Liverpool voru afar skýr; að halda Gerrard hjá félaginu.

Gerrard til í að yfirgefa Liverpool

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, segist vera til í að yfirgefa félagið í sumar ef honum verður ekki boðinn nýr samningur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×