Innlent

Helmingur prófa fellur niður

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Þetta verður afgreitt með samræmdum hætti,“ segir Rúnar Vilhjálmsson.
"Þetta verður afgreitt með samræmdum hætti,“ segir Rúnar Vilhjálmsson.
Verið er að vinna lista yfir þau próf sem heimilt verður að halda í Háskóla Íslands komi til verkfalls prófessora. Þá hafa allir prófessorar fengið upplýsingar um hvaða reglur munu gilda um prófahald í verkfalli. Þetta segir Rúnar Vilhjálmsson, formaður Félags prófessora við ríkisháskóla.

„Þetta er um helmingur námskeiða í Háskóla Íslands sem detta út komi til verkfalls en það er verið að sannreyna listann áður en hann verður gefinn út,“ segir Rúnar.

„Það er því eðlilegt og við því að búast, að prófið fari fram á réttum tíma þrátt fyrir hugsanlegt verkfall prófessora,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson.vísir/valli
„Prófið fari fram á réttum tíma“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, sendi tölvubréf til nemenda sinna í gær þess efnis að próf í hans áfanga verði haldin, sama hvort til verkfalls komi eður ei. Sagðist hann hafa samið prófið og komið því til réttra aðila.

„Enginn félagi í Prófessorafélaginu kemur nálægt neinu í þessu ferli. Það er því eðlilegt og við því að búast, að prófið fari fram á réttum tíma þrátt fyrir hugsanlegt verkfall prófessora,“ segir í tölvupóstinum en mbl.is greindi frá málinu í dag.

Þær reglur sem settar verða komi til verkfalls snúa að því að ef prófessor er umsjónakennari námskeiðs sem prófað er í, eða kemur að einhverju leyti að námsmati dagana 1. - 15. desember þá verður prófið í námskeiðinu ekki haldið.

„Ekki einstaka kennara að túlka reglur“

Rúnar segist ekki tjá sig um einstök mál og vildi því ekki tjá sig um tölvupóst Hannesar en hann hefur enn ekki fengið póstinn í hendurnar. „Það eru almennar og tiltölulega skýrar reglur sem gefnar voru út og við sendum á alla prófessora og stjórnendur skólans. Það er ekki einstaka kennara að túlka reglur og viðmið varðandi framkvæmd verkfalla eða að hafa hver sinn háttinn á. Þetta verður afgreitt með samræmdum hætti,“ segir Rúnar.  

Birtir til í samningaviðræðum

Félagsmenn í Félagi prófessora við ríkisháskóla munu leggja niður störf fyrstu tvær vikurnar í desember eða frá miðnætti 1. desember til 15. desember takist ekki að leysa kjaradeilu þeirra við ríkið fyrir þann tíma. Jólapróf um 8000 stúdenta við háskóla landsins er í uppnámi komi til verkfallsins.

Samninganefnd Félags prófessora fundaði með samninganefnd ríkisins í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Rúnar segir að eitthvað hafi þokast í viðræðunum og er bjartsýnni í dag en hann var í gær. Næsti fundur verður haldinn á föstudag. „Það voru stigin ákveðin skref í dag og ég vona að myndin verði enn skýrari næsta föstudag,“ segir Rúnar að lokum.

Félagsmenn eru prófessorar sem fastráðnir eru við íslenska ríkisháskóla. Það er Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla.


Tengdar fréttir

Prófessorar samþykktu verkfallsaðgerðir

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem kusu í atkvæðagreiðslu Félags prófessora við ríkisháskóla um boðun verkfalls samþykktu verkfallsaðgerðir.

Jólapróf háskólanemenda í tvísýnu vegna kjarabaráttu

Félag prófessora við ríkisháskóla undirbýr atkvæðagreiðslu til þess að taka ákvörðun um hvort boðað verði til verkfalls í byrjun desember. Þetta gæti þýtt að um helmingi jólaprófa við ríkisháskóla verði frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×