Handbolti

Olason búinn að læsa markinu eftir komu Atla til Akureyrar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tomas Olason á stóran þátt í þremur sigurleikjum Atla Hilmarssonar.
Tomas Olason á stóran þátt í þremur sigurleikjum Atla Hilmarssonar. vísir/stefán
Akureyri handboltafélag hefur snúið við blaðinu eftir endurkomu Atla Hilmarssonar norður, en undir stjórn hans eru Akureyringar búnir að vinna þrjá leiki í röð í Olís-deildinni.

Fyrir komu Atla var liðið aðeins búið að vinna þrjá leiki af átta, en er nú komið upp í fimmta sæti deildarinnar með tólf stig eftir ellefu leiki.

Akureyri lagði Hauka sannfærandi í gærkvöldi, 28-21, en voru búnir að vinna HK, 23-18, og topplið Aftureldingar, 27-23, í tveimur leikjum þar á undan.

Liðið fær mun færri mörk á sig síðan Atli tók við liðinu. Í þremur leikjum undir hans stjórn hefur Akureyri fengið á sig 20,6 mörk í leik að meðatali, en í átta leikjum þar á undan fékk liðið á sig að meðaltali 26,3 mörk í leik.

Augljóst er að Atli hefur slípað saman varnarleikinn sem átti að vera aðalsmerki liðsins í vetur með Peking-miðvarðaparið Sverre Jakobsson og Ingimund Ingimundarson í hjarta varnarinnar.

Atli Hilmarsson byrjar vel.vísir/anton
Miklu munar líka um markvörslu Danans Tomasar Olasonar sem byrjaði tímabilið ekki vel. Hann varði vel inn á milli, eins og í leik gegn Fram á útivelli á dögunum þegar hann varði 46 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

En á heimavelli er mikill munur á Tomasi nú og áður en Atli tók við. Í fjórum heimaleikjum áður en Atli tók við liðinu var Olason með að meðaltali 31,5 prósent hlutfallsmarkvörslu. Frammistaða hans gegn Stjörnunni (43 prósent) rífur hann mikið upp þar.

Í þremur leikjum gegn Val (26 prósent), ÍBV (22 prósent) og FH (36 prósent) var hann aðeins með 28 prósent hlutfallsmarkvörslu að meðaltali.

Eftir að Atli tók við er Olason með magnaða hlutfallsmarkvörslu eða 49,5 prósent að meðatali. Hann varði 41 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig gegn Aftureldingu fyrir tveimur umferðum síðan, 62 prósent gegn HK í síðustu umferð og 46 prósent gegn Haukum í gærkvöldi.

Olason reif af sér nokkur kíló fyrir tímabilið og hefur æft mun meira og betur, að sögn Akureyringa. Það er líka eins gott fyrir hann að standa sig því Hreiðar Levý Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður, kemur til baka eftir meiðsli á nýju ári og var hann ekki keyptur heim úr atvinnumennsku til að sitja á bekknum.

Frammistaða Olasons í fyrstu fjórum heimaleikjunum:

31-27 sigur á Stjörnunni: 20 varin skot (43 prósent hlutfallsmarkvarsla)

27-30 tap gegn Val: 10 varin skot (26 prósent hlutfallsmarkvarsla)

32-33 tap gegn ÍBV: 8 varin skot (22 prósent hlutfallsmarkvarsla)

20-27 tap gegn FH: 15 varin skot (36 prósent hlutfallsmarkvarsla)

Meðaltal: 31,5 prósent hlutfallsmarkvarsla

Frammistaða Olasons í síðustu þremur heimaleikjum:

27-23 sigur á Aftureldingu: 16 varin skot (41 prósent hlutfallsmarkvarsla)

23-18 sigur á HK: 23 varin sko (62 prósent hlutfallsmarkvarsla)

28-21 sigur á Haukum: 18 varin skot (46 prósent hlutfallsmarkvarsla)

Meðaltal: 49,5 prósent hlutfallsmarkvarsla


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×