Fótbolti

Sextán Króatar enduðu í steininum | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Ítalska lögreglan handtók alls sextán Króata á leik Ítalíu og Króatíu í undankeppni EM í gær en leikurinn fór fram á San Siro í Mílanó. Dómari leiksins þurfti að gera tvö hlé á leiknum vegna óláta króatísku áhorfendanna sem enduðu síðan margir á bak við lás og slá.

Króatarnir voru handteknir fyrir að trufla leikinn með því að henda flugeldum og blysum inn á völlinn en dómari leiksins þurfti fyrsta að stoppa leikinn í nokkrar mínútur í fyrri hálfleik. Hann varð svo að gera tíu mínútna hlé í seinni hálfleik á meðan ítalska lögreglan fjarlægði umrædda Króata úr stúkunni á San Siro.

Síðustu sautján mínútur leiksins fóru því ekki fram fyrr en öryggislögreglan var búinn að reka umrædda ólátabelgi í burtu úr stúkunni. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en bæði mörkin komu snemma leiks.  Hér fyrir neðan má sjá frétt Arnars Björnssonar um leikinn í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Niko Kovac, þjálfari Króata, biðlaði til stuðningsmanna Króata að róa sig á meðan leiknum stóð og hann skammaði sín fyrir framkomu landa sinna í viðtölum við blaðamenn. „Þetta er ekki fótbolti. Þetta er heldur ekki sanngjarnt fyrir ímynd okkar þjóðar og okkar fólks," sagði  Niko Kovac eftir leik.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×