Innlent

Mótmælt á Austurvelli í dag: „Við búum í samfélagi ekki einkahlutafélagi“

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir
Boðað hefur verið til mótmælta á Austurvelli klukkan fimm í dag en þau eru undir yfirskriftinni; „Jæja, Hanna Birna! Mótmælafundur á Austurvelli“.

Fram kemur í tilkynningu frá forsvarsmönnum mótmælanna að mótmælt verði aðgerðum og aðgerðaleysi stjórnvalda.

„Við krefjumst þess að stjórnmálamenn axli ábyrgð á störfum sínum og málaflokkum. Taki hagsmuni þjóðarinnar fram yfir hagsmuni flokka, að stjórnmálamenn virði hið þrískipta vald í lýðræðisþjóðfélagi okkar,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að vegið sé að grunnstoðum samfélagsins, dómsvaldinu á Íslandi og að frelsi fjölmiðla.

„Vegið er að jafnri velferð, vegið er að heilbrigðiskerfinu, vegið er að menntun og menningu þjóðar okkar, vegið er að þegnum samfélagsins með ójöfnuði.“

Mótmælendurnir telja að sundrung ríki í þjóðfélaginu.

„Ríkisstjórnin situr í skjóli kjósenda og ber því að vinna að hagsmunum allra í samfélaginu. Við búum í samfélagi ekki einkahlutafélagi! Það þarf að „leiðrétta“ allt samfélagið. Byrjum á grunnstoðum samfélagsins.

2500 manns hafa boðað komu sína á Facebook-síðu mótmælanna, en þetta er þriðji mánudagurinn í röð sem mótmælt er á Austurvelli.

Dagskráin verður eftirfarandi:

Illugi Jökulsson rithöfundur og Bragi Páll Sigurðsson, höfundur greinarinnar Ísland er ónýtt, flytja ávörp. Hemúllinn verður á staðnum og tekur lagið og Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir stýrir fundi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×