Fótbolti

Vill að lönd Evrópu sniðgangi næsta HM

Bernstein er hér með Roy Hodgson, landsliðsþjálfara Englands.
Bernstein er hér með Roy Hodgson, landsliðsþjálfara Englands. vísir/getty
Fyrrum formaður enska knattspyrnusambandsins, David Bernstein, vill að lönd í Evrópu taki höndum saman svo hægt verði að þvinga fram breytingar hjá Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA.

Bernstein hefur fengið nóg af ruglinu í kringum FIFA og segir að nú sé kominn tími á alvöru aðgerðir. Hann vill að lönd Evrópu sniðgangi næsta HM.

„England getur ekki gert það eitt. Það yrði bara hlegið að okkur. Við þurfum að hvetja fleiri þjóðir til þess að taka þátt. Ég veit að sum lönd væru til í að spila með en önnur ekki," sagði Bernstein.

„Á einhverjum tímapunkti þarf að hætta öllu blaðri og gera eitthvað af viti."

Bernstein vill, eins og fleiri, losna við Sepp Blatter úr forsetastól FIFA. Hann segir einræði ríkja hjá FIFA sem minni á stjórnarhætti í gömlu Sovétríkjunum.

Trúverðugleiki sambandsins er löngu horfinn að mati Bernstein og sú ákvörðun að gefa Katar HM 2022 sé ein sú galnasta í sögu knattspyrnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×