Sport

Sex hundruð keppendur á Silfurleikum ÍR í frjálsum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Frjálsíþróttadeild ÍR
Silfurleikar ÍR í frjálsum íþróttum fara fram í Laugardalshöllinni á laugardaginn en þetta er í nítjánda sinn sem þetta skemmtilega mót fer fram.

Silfurleikarnir eru haldnir til heiðurs Vilhjálmi Einarssyni og silfurverðlaunum hans á Ólympíuleikunum 1956 og er keppt í þrístökki í öllum aldursflokkum frá 11 ára aldri.

Það er frábær þátttaka í ár en sex hundruð keppendur frá 25 félögum víðsvegar að af landinu mæta til leiks í flokkum 17 ára og yngri. Flestir keppendur koma frá ÍR eða 120.  

Þátttakendur 10 ára og yngri keppa í fjölþraut barna sem er alþjóðlegt keppnisfyrirkomulag sem ÍR-ingar hafa haft forystu um að innleiða hér á landi.  

Keppendur 11-17 ára keppa í hefðbundnum frjálsíþróttagreinum.

Yngstu aldursflokkarnir hefja keppni kl. 9:00 og fyrstu tvo tímana verður keppt á 23 stöðum samtímis bæði í gömlu Höllinni og frjálsíþróttahöllinni.  

Eftir því sem líður á daginn fjölgar keppnisgreinum í unglingaflokkum og áætlað keppni ljúki kl. 17:00.  Mótið er framkvæmt af um 80 sjálfboðaliðum úr röðum ÍR-inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×