Fótbolti

Hollendingar töpuðu fyrir Mexíkó - Neymar með tvö í sigri Brassa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar.
Neymar. Vísir/Getty
Hollenska landsliðið náði ekki að reka af sér slyðruorðið í Amsterdam í kvöld en liðið tapaði þá 2-3 í vináttulandsleik á móti Mexíkó. Tyrkir töpuðu á sama tíma 0-4 á heimavelli á móti Brasilíu. Þetta var því ekki gott kvöld fyrir liðin í okkar riðli.  Lionel Messi tryggði Argentínu sigur á Króatíu í London.

Carlos Vela, liðsfélagi Alfreðs Finnbogasonar hjá Real Sociedad, skoraði tvö mörk fyrir Mexíkó í kvöld í 3-2 sigri á Hollandi en hann kom Mexíkó bæði í 1-0 og 2-1 í þessum leik. Mörk Vela komu á 8. og 62. mínútu leiksins.

Wesley Sneijder jafnaði metin í 1-1 á 49. mínútu en Javier Hernández, leikmaður Real Madrid, kom Mexíkó í 3-1 á 69. mínútu áður en Daley Blind, leikmaður Manchester United minnkaði muninn aftur í eitt mark sextán mínútum fyrir leikslok.

Neymar skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 4-0 sigri Brasilíu á Tyrklandi í Istanbul. Eitt marka Brassana var sjálfsmark en fjórða markið skoraði Willian, leikmaður Chelsea. Willian skoraði markið sitt eftir undirbúning Neymar.

Neymar, sem skoraði fyrsta markið á 20. mínútu og fjórða markið á 60. mínútu leiksins, er nú búinn að skora 42 mörk í aðeins 59 landsleikjum með brasilíska landsliðinu.

Lionel Messi tryggði Argentínu 2-1 sigur á Króatíu með marki úr vítaspyrnu á 57. mínútu í vináttulandsleik þjóðanna á Boleyn Ground í London. Anas Sharbini kom Króatíu í 1-0 strax á 11. mínútu en Cristian Ansaldi jafnaði metin á 49. mínútu eftir undirbúning frá Sergio Agüero.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×