Íslenski boltinn

Brynjar Gauti á leið til Danmerkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Brynjar Gauti Guðjónsson.
Brynjar Gauti Guðjónsson. vísir/daníel
Unglingalandsliðsmaðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson er væntanlega á förum frá ÍBV og hefur sett stefnuna á útlönd.

Til stóð að hann færi utan ti Danmerkur á morgun og æfa með liði Silkeborg í vikutíma eins og Vísir greindi frá fyrr í dag. Skjótt skipast veður í lofti því félagið hafði samband við hann í dag. Hann fer utan á laugardag og spilar leik með liðinu á mánudag.

„Þeir töldu ekki vera ástæðu til þess að fylgjast með mér í viku. Þetta verður því stutt ferð. Æfing á sunnudegi og leikur a mánudegi," segir Brynjar Gauti en liðið er í leit að miðverði.

Silkeborg er langneðst í dönsku úrvalsdeildinni með aðeins tvö stig eftir fjórtán leiki. Liðið hefur ekki enn unnið leik og er tólf stigum á eftir næsta liði.

Brynjar Gauti stóð sig frábærlega með U-21 árs liði Íslands í umspilsleikjunum gegn Dönum á dögunum og náði að vekja athygli erlendra liða á sér.

„Það fóru að koma fyrirspurnar eftir þá leiki þannig að greinilega voru einhverjir ánægðir með hvernig ég spilaði."

Miðvörðurinn frá Ólafsvík verður samningslaus um næstu áramót og hefur væntanlega leikið sínn síðasta leik fyrir ÍBV. Hann hefur einnig verið orðaður við mörg bestu liðin í Pepsi-deildinni.

„Orðið á götunni er sterkt og ég á víst að vera búinn að semja við mörg félög," sagði Brynjar og hló létt af þeim sögum sem hafa verið í gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×